Íslenski boltinn

Geir: Leitin hafin að næsta þjálfara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Geir Þorsteinsson og Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari.
Geir Þorsteinsson og Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari. Mynd/Anton
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, vildi ekki mikið tjá sig um þjálfaramál A-landsliðs karla en tilkynnt var í dag að Ólafur Jóhannesson myndi ekki halda áfram í starfinu þegar núverandi samningur hans rennur út.

Ólafur tilkynnti í dag landsliðshópinn sem mætir Noregi ytra og Kýpur á heimavelli í byrjun næsta mánaðar. Blaðamaðafundurinn hófst á því að Geir tilkynnti ákvörðun KSÍ.

„Ólafur mun ljúka sínum störfum þegar hans samningur rennur út um áramótin.“

Gengi íslenska landsliðsins hefur verið slæmt undir stjórn Ólafs. Liðið er í neðsta sæti síns riðils í undankeppni EM 2012 og hefur aldrei verið neðar á styrkleikalista FIFA. Nýr listi var gefinn út í gær og situr Ísland í 124. sæti

Geir vildi lítið meira segja um aðdraganda þessarar ákvörðunnar.

„Við ræddum þetta í sumar og þetta er löngu frágengið,“ sagði Geir. „Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú að okkur hefur ekki gengið nógu vel.“

Hann var því næst spurður hvort að KSÍ væri byrjað að velta því fyrir sér hver ætti að taka við.

„Það eina sem ég vil segja um þjálfaramál á þessum fundi er að leitin er hafin. Annað ætla ég ekki að segja. Við erum fyrst og fremst að einbeita okkur nú að þessum tveimur þýðingamiklu leikjum gegn Noregi og Kýpur. Leikmenn eru einbeittir og ég veit að þeir eiga eftir að standa sig. Við förum út í leikinn í Noregi af fullum krafti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×