Íslenski boltinn

HK enn á lífi eftir annan 3-0 sigurinn í röð - Haukar unnu Leikni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eyþór Helgi Birgisson.
Eyþór Helgi Birgisson. Mynd/Anton
HK-ingar eru enn á lífi í 1. deild karla í fótbolta eftir 3-0 útisigur á ÍR í Mjóddinni í kvöld. HK hefði fallið í 2. deild með tapi alveg eins og í síðasta leik þegar HK-ingar unnu 3-0 sigur á BÍ/Bolungarvík. Þetta eru tveir fyrstu sigrar HK-liðsins í sumar.  

Haukar unnu á sama tíma 3-0 sigur á Leikni á Ásvöllum þar sem að Úlfar Hrafn Pálsson skoraði tvö fyrstu mörkin áður en Alieu Jagne innsiglaði sigurinn.

Eyþór Helgi Birgisson skoraði öll mörk HK í 3-0 sigrinum á ÍR í kvöld þar af komu tvö fyrstu mörk hans úr vítum. Eyþór Helgi skoraði tvö mörk í sigrinum á Djúpmönnum og er því með fimm mörk í síðustu tveimur leikjum eftir að hafa aðeins skorað þrjú mörk í fyrstu þrettán leikjunum. Mörk Eyþórs komu á 23., 59. og 76. mínútu.

HK er með 12 stig þegar þrjár umferðir eru eftir en þeir eru sjö stigum á eftir ÍR-ingum sem sitja í síðasta örugga sætinu. HK er nú aðeins einu stigi á eftir Leikni sem er í næstsíðasta sæti deildarinnar.

Haukar komust upp í 3. sæti og eru nú þremur stigum á eftir Selfossi í baráttunni um annað sætið. Selfoss á leik inni á móti Víkingi Ó. á laugardaginn.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá vefsíðunni fótbolti.net.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×