Íslenski boltinn

KR-ingar í appelsínugulum búningum á laugardaginn - Valgeir dæmir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
KR-ingar léku líka í appelsínugulu í úrslitaleiknum í fyrra.
KR-ingar léku líka í appelsínugulu í úrslitaleiknum í fyrra. Mynd/Daníel
Blaðamannafundur fór fram í höfuðstöðvum KSÍ í dag þar sem forráðamenn Þórs og KR gáfu kost á viðtölum fyrir bikarúrslitaleikinn á laugardaginn. Á fundinum kom fram að Þórsarar spila í sínum hefðbundnu hvítu og rauðu búningum en KR-ingar verða í appelsínugulum varabúningum sínum.

Valgeir Valgeirsson, sem dæmir fyrir ÍA, hefur fengið það hlutverk að dæma leikinn. Gunnar Sverrir Gunnarsson og Frosti Viðar Gunnarsson verða aðstoðardómarar, Þorvaldur Árnason fjórði dómari og Kári Gunnlaugsson sinnir eftirlitsstörfum.

Sigurliðið fær eina milljón krónur í sinn hlut en tapliðið 500 þúsund krónur.

Þórsarar munu sitja í norðurenda stúkunnar á Laugardalsvelli en KR-ingar í suðurendanum. Stuðningsmenn Þórsara koma saman á öldurhúsinu Ölveri í Glæsibæ fyrir leikinn. Stuðningsmenn KR-inga hittast á Rauða Ljóninu á Eiðistorgi á leikdag áður en haldið verður á Laugardalsvöll.

Á heimasíðu Mjölnismanna, stuðningsmanna Þórs, fer fram skráning í rútuferðir í höfuðborgina. Hægt er að skrá sig í ferðina hér.

Stuðningsmenn KR standa fyrir hópefli í kvöld klukkan 20 á Rauða Ljóninu þar sem fer fram Pub Quiz. Þeir vonast eftir því að Guðmundur Reynir Gunnarsson taki lagið. Guðmundur Reynir missir sem kunnugt er af bikarúrslitaleiknum á laugardaginn vegna leikbanns. Nánar hér.

Leikurinn hefst á klukkan 16 á laugardaginn og verður í beinni útsendingu á Stöð2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×