Íslenski boltinn

Rúnar ætlar að segja nei verði honum boðið A-landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson. Mynd/Hag
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, hefur ekki áhuga á því að taka við karlalandsliðinu í fótbolta. Þetta kom í ljós þegar Valtýr Björn Valtýsson spurði hann hreint út í útsendingu Stöðvar 2 Sport frá undanúrslitaleik KR og BÍ/Bolungarvíkur í Valtor-bikarnum í gær.

Rúnar bætist þar með í hóp með Eyjólfi Sverrissyni, þjálfara 21 árs landsliðsins, en þeir hafa báðir gefið það opinberlega út að þeir vilji ekki taka við karlalandsliðinu.

Það þykir ekki líklegt að Ólafur Jóhannesson fái að halda áfram með karlalandsliðið enda liðið aðeins búið að vinna 1 af 14 alvöru landsleikjum undir hans stjórn.

Valtýr Björn spurði Rúnar eftir leik í gær hvort hann hefði áhuga á að taka við A-landsliðinu. „Nei," svaraði Rúnar og í kjölfarið fylgdi vandræðaleg þögn því Rúnar hafði greinilega engan áhuga á að ræða þetta eitthvað frekar.

Rúnar sagðist heldur ekki vera á leiðinni til Lokeren. „Þeir hafa ekkert haft samband við mig og ég hef ekkert heyrt frá þeim síðan í vor þegar ég talaði við félaga minn þar sem stjórnar öllu. Við fórum ekkert út í að ræða þjálfaramál í framtíðnni. Ég er ánægður hjá KR og verð í KR meðan ég er ánægður þar," sagði Rúnar við Valtý Björn á Ísafirði í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×