Íslenski boltinn

Skagamenn með tveimur stigum meira en þeir fengu allt síðasta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Martin og félagar hafa verið á flugi í allt sumar.
Gary Martin og félagar hafa verið á flugi í allt sumar. Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
Skagamenn eru í frábærum málum í 1. deild karla eftir 6-0 stórsigur á Þrótti, liðinu í 4. sæti, á Valbjarnarvellinum á þriðjudagskvöldið. Skagaliðið er nú með tólf stiga forskot á selfoss (2. sæti) og 17 stiga forskot á liðinu í 3. og 4. sæti (Haukar og Þróttur) en Selfoss og Haukar eiga reyndar leiki inni.

Skagamenn eru nú á sínu þriðja tímabili í röð í 1. deildinni og hafa þeir þegar bætt stigafjölda sinn frá á síðustu tveimur tímabilum. Eftir 13 umferðir af 22 þá er ÍA með 37 stig eða tveimur stigum meira en liðið fékk allt síðasta sumar og níu stigum meira en liðið fékk sumarið 2009 þegar Skagamenn náðu aðeins 9. sætinu í 1. deildinni.

Skagamenn hafa unnið 12 af 13 leikjum sínum og einu töpuðu stigin eru í 1-1 jafntefli á móti Víkingur Ólafsvík í byrjun júní. Síðan þá hefur ÍA-liðið unnið níu deildarleiki í röð með markatölunni 32-3 þar af 6-0 sigra á liðunum í 4. sæti (Þróttur), 5. sæti (BÍ/Bolungarvík) og 6. sæti (Fjölnir).  








Fleiri fréttir

Sjá meira


×