Íslenski boltinn

Lára Kristín: Samheldnin, hjartað og föðurlandsástin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lára Kristín Pedersen leikmaður Aftureldingar er í stúlknalandsliði Íslands 17 ára og yngri. Stelpurnar mæta Spánverjum á fimmtudaginn í undanúrslitum Evrópumótsins. Leikið er í Nyon í Sviss en stelpurnar halda utan í kvöld.

Lára Kristín og íslensku stelpurnar æfðu á Valsvelli í dag og greinilegt að stemmningin í hópnum er góð. Stelpurnar skemmtu sér vel á æfingunni, greinilega góðar vinkonur en þó einbeittar á verkefnið framundan.

„Já, þetta verður mjög erfitt en við ætlum að gefa allt í þetta og taka þennan leik," segir Lára Kristín.

Spánverjar eru ríkjandi Evrópumeistarar í þessum aldursflokki en auk þess hafa Spánverjar notið mikillar velgengni hvert sem litið er í alþjóðaknattspyrnu undanfarin misseri.

„Já, að sjálfsögðu eigum við möguleika. Við erum búnar að standa okkur alveg jafnvel, jafnvel betur. Við ætlum að sýna hvað við getum," segir Lára Kristín sem segir samheldnina, hjartað og föðurlandsástina vera styrk íslenska liðsins.

Lára Kristín segir hópinn mjög skemmtilegan og stelpurnar nái vel saman. Það hjálpi mikið til. Þær láta sér ekki leiðast á landsliðsferðalögum heldur.

„Við bara höngum saman inni á herbergi, hlustum á tónlist og tölum saman," segir Lára Kristín hissa á að fréttamaður velti fyrir sér hvernig stelpurnar láti tímann líða.

Lára Kristín segir landsliðið svipað A-landsliði kvenna að því leyti að þær láti vel finna fyrir sér á vellinum. Hún segir stelpurnar spenntar enda sé ekki annað hægt.

Aðspurð hvort stelpurnar muni ekki standa sig vel segir Lára:

„Það er loforð."

Landsleikur Íslands og Spánar fer fram klukkan 12 að íslenskum tíma á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×