Þórður Þórðarson: Ekki komnir upp en þetta lítur óskaplega vel út
„Þetta eru frábærir strákar í þessu liði. Vinnan sem við erum búnir að leggja á okkur síðustu tvö ár er að skila sér. Þegar ég tók við liðinu á þeim tíma settum við okkur ný markmið og reyndum að bæta veikleika okkar. Það er að takast smátt og smátt.“ Þjálfarinn var aldrei í vafa um að ÍA myndi landa sigrinum gegn Selfyssingum. „Ég sagði við strákana í hálfleik að við gætum alveg unnið þá einum færri.“
Þórður segist ekkert hafa skipt sér að því hver myndi taka aukaspyrnuna undir lok leiksins þar sem Mark Doninger hafði betur eftir „hörkurifrildi“ við Gary Martin, en þeir vildu báðir taka aukaspyrnuna. „Þeir rífast oftast um svona hluti Englendingarnir í liðinu okkar. Fyrir mig skiptir það engu máli ef við skorum,“ sagði Þórður.
Tengdar fréttir
Doninger: Alveg sama þótt Gary öskri á mig
"Ég hafði það á tilfinningunni að ég myndi hitta boltann vel og skora. Þess vegna tók ég þessa aukaspyrnu. Ég var alveg viss um að hitta á markið og það er frábært að skora sigurmark með þessum hætti. Mér var alveg sama þótt Gary (Martin) væri að öskra á mig en hann vildi að sjálfsögðu taka þetta sjálfur,“ sagði Englendingurinn Mark Doninger leikmaður ÍA eftir að hann tryggði liðinu 2-1 sigur með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu á 90. mínútu gegn liði Selfoss í kvöld á Akranesvelli.
Þrumufleygur Doninger tryggði Skagamönnum sigur
Skagamenn eru enn taplausir eftir 14 leiki í næst efstu deild karla í fótbolta eftir 2-1 sigur gegn liði Selfoss á Akransvelli í kvöld. Mark Doninger tryggði ÍA sigur með þrumuskoti beint úr aukaspyrnu á 89. mínútu en Skagamenn léku einum færri í um 80 mínútur þar sem að Heimir Einarsson fyrirliði var rekinn af velli eftir um 13 mínútur.