Íslenski boltinn

BÍ/Bolungarvík ósátt við kynþáttafordóma í Ólafsvík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tomi Ameobi fékk gult spjald gegn Þrótti á dögunum sem Guðjón Þórðarson var allt annað en sáttur við
Tomi Ameobi fékk gult spjald gegn Þrótti á dögunum sem Guðjón Þórðarson var allt annað en sáttur við Mynd/Anton
Víkingur í Ólafsvík vann mikilvægan 4-1 sigur á BÍ/Bolungarvík í viðureign liðanna á Snæfellsnesi í gær. Á heimasíðu BÍ/Bolungarvíkur segir að leikmenn liðsins hafi orðið fyrir niðrandi hrópum frá heimamönnum meðan á leik stóð.

Á heimasíðu Vestfirðinga www.bibol.is er fjallað um leikinn og í lok umfjöllunarinnar er skrifað:

„Það má bæta við þetta að andrúmsloftið í Ólafsvík var vægast sagt öðruvísi en annars staðar því oft á tíðum var hrópað að tveim leikmönnum okkar mjög niðrandi hróp sem flokkast einfaldlega undir kynþáttafordóma. Hrópin ómuðu um Ólafsvík og fóru væntanlega ekki framhjá neinum íbúa bæjarins."

Að sögn Vestfirðinga bárust köllin aðallega að Tomi Ameobi þegar hann var með boltann. Loic Mbang Ondo hafi þó ekki sloppið við köllin. Hrópið „takið á þessum helvítis negra djöfli" var nefnt sem dæmi um hróp sem heyrðust úr stúkunni.

Jónas Gestur Jónasson formaður knattspyrnudeildar Víkings Ólafsvík kannaðist ekki við hróp á borð við þessi á vellinum í gær.

„Nei, ég gat nú ekki heyrt það. Það kallaði einhver "takið þennan svarta" eða eitthvað svoleiðis en ég veit ekki hvort það séu kynþáttafordómar," sagði Jónas Gestur.

„Þess má geta að við erum með einn strák (Matarr Jobe) sem er svartur á hörund í okkar liði sem var reyndar ekki í hópnum í gær. Það er enginn rasismi í fólkinu fyrir vestan," sagði Jónas Gestur.

Þess má til gaman geta að Vestfirðingar spiluðu í varabúningum Víkinga þar sem þeir tóku rangt búningasett með sér í Ólafsvík.

Víkingur lyfti sér upp í fjórða sæti 1. deildar með 15 stig með sigrinum í gær. BÍ/Bolungarvík situr í því áttunda með 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×