Innlent

Stuðningsmenn Geirs opna heimasíðu

Vefsíða hefur verið opnuð til stuðnings Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, vegna ákæru á hendur honum fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð.

Málið gegn Geir verður þingfest í Landsdómi eftir hádegi á morgun. Það var í byrjun maí sem Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, gaf ákæruna út. Brotin geta varðað allt að tveggja ára fangelsi. Það vakti athygli þegar saksóknari opnaði í síðustu viku sérstakan vef sem helgaður er málsókninni gegn Geir. Vefurinn tilheyrir opinberu vefsvæði ríkisins þar sem einnig má finna vefi ráðherra og stofnana.

Á vefnum má finna öll gögn málsins sem gerð hafa verið opinber. Gagnrýnt hefur verið að sérstök síða hafi verið opnuð til þess eins að miðla upplýsingum um þetta eina mál. Nú hafa vinir og velunnarar Geirs stofnað félag til að veita honum stuðning í málsvörn sinni. Þeir hafa til þess meðal annars opnað vefsíðuna malsvorn.is en tilgangurinn er meðal annars að afla fjár til málsvarnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×