Íslenski boltinn

Staða HK versnar enn eftir tap á Selfossi - markalaust í Ólafsvík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson og félagar unnu sinn fyrsta sigur í sumar.
Jón Daði Böðvarsson og félagar unnu sinn fyrsta sigur í sumar.
Selfyssingar fögnuðu langþráðum heimasigri í kvöld þegar þeir unnu 4-2 sigur á HK í 5. umferð 1. deildar karla. Selfyssingar höfðu ekki fengið stig í fyrstu tveimur heimaleikjum sínum í sumar a móti Fjölni og ÍA en tryggðu sér mikilvægan sigur í kvöld.

Arilíus Marteinsson, Ibrahima Ndiaye, Auðun Helgason og Viðar Örn Kjartansson skoruðu mörk Selfoss í kvöld en Atli Valsson og Hólmbert Aron Friðjónsson skoruðu fyrir HK. Staðan í hálfleik var 3-2 fyrir Selfoss sem komst í 3-1 í leiknum.

HK-liðið tapaði þarna þriðja leiknum sínum í röð og er áfram á botninum með aðeins eitt stig af fimmtán mögulegum. Það er því verulega farið að hitna undir Tómasi Inga Tómassyni, þjálfara liðsins, sem er á leiðinni út til Danmerkur sem aðstoðarþjálfari 21 árs landsliðsins.

 

Víkingur úr Ólafsvík og Leiknir gerðu markalaust jafntefli í Ólafsvík þar sem tvö rauð spjöld fóru á loft. Leiknismaðurinn Pape Mamadou Faye var fyrst rekinn útaf en Víkingurinn Edin Beslija fékk líka rautt í lokin.

Leiknir hefur þar með gert fjögur jafntefli í fyrstu fimm leikjum sínum og Víkingar hafa gert þrjú jafntefli í sínum fimm leikjum. Hvorugt liðanna hefur náð að vinna leik í fyrstu fimm umferðunum.  

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af vefsíðunni fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×