Íslenski boltinn

Þórður Þórðarson: Við eigum eftir að laga margt í okkar leik

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Dean Martin og Jens Elvar Sævarsson í baráttunni á Akranesvelli í kvöld.
Dean Martin og Jens Elvar Sævarsson í baráttunni á Akranesvelli í kvöld. Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
Hjörtur Hjartarson tryggði Skagamönnum þrjú stig gegn Þrótti í kvöld en íþróttafréttamaðurinn knái skallaði boltann í netið af stuttu færi í 1-0 sigri ÍA á Akranesvelli. Hjörtur hefur skorað í tveimur fyrstu leikjum ÍA og er liðið með fullt hús stiga og liðið hefur enn ekki fengið á sig mark.

Aðstæður á Akranesvelli voru alls ekki góðar. Ísköld norðanátt, og frekar hvöss. Skagamenn fengu vindinn aðeins í bakið í fyrri hálfleik og voru mun líklegri til þess að skora. Þróttarar fengur nokkur „hálffæri" en Páll Gísli Jónsson markvörður ÍA þurfti ekki að hafa mikið fyrir hlutunum.

Hjörtur skoraði eina mark leiksins með skalla af stuttu færi á 43. mínútu eftir fyrirgjöf frá Guðjóni Heiðari Sveinssyni. Dean Martin og Gary Martin voru mjög áberandi í sóknarleik ÍA en einnig átti Eggert Kári Karlsson fína spretti. Martin Doniger byrjaði frekar illa á miðsvæðinu hjá ÍA en hann náði betri tökum á verkefninu þegar á leið.

Lið Þróttar sýndi ágæt tilþrif og skyndisóknir liðsins í fyrri hálfleik voru vel útfærðar. En fótbolti snýst um að skora mörk og það náðu gestirnir ekki að gera. Páll Einarsson þjálfari Þróttar var vísað úr varamannaskýlinu undir lok síðari hálfleiks fyrir mótmæli en liðið er með 1 stig eftir tvær umferðir.

"Við erum með mun reyndari leikmenn í ár en í fyrra. Varnarleikurinn er það sem við leggjum áherslu á og við lögðum upp með það að berjast og halda hreinu við erfiðar aðstæður. Þessi leikur þróaðist alveg eins og við áttum von á. Það var barist um alla bolta og vindurinn gerði báðum liðum erfitt fyrir. Þetta er fín byrjun en við eigum eftir að laga margt í okkar leik," sagði Þórður Þórðarson þjálfari ÍA eftir leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×