FH-ingar misstu af úrslitaleik Lengjubikars karla eftir 1-2 tap fyrir Val í framlengdum undanúrslitaleik í Kórnum í gær. Heimir Guðjónson, þjálfari liðsins, hrósaði Valsliðinu eftir leikinn.
„Við stefndum að því að komast í úrslitaleikinn. Það hefði verið fínt að komast í hann og fá einn góðan leik í viðbót en það náðist ekki dag," sagði Heimir Guðjónsson í viðtali við Eirík Stefán Ásgeirsson eftir leikinn.
„Við nýttum ekki færin vel en ég ætla ekki að taka neitt af Valsliðinu því þeir spiluðu virkilega vel og sköpuðu sér líka góð færi. Valsmenn eru með virkilega öflugt og heilsteypt lið. Við töpuðum fyrir verðugum andstæðing," sagði Heimir.
„Ég er nokkuð sáttur við stöðuna á liðinu en það er eitt og annað sem við þurfum að laga. Við þurfum kannski að ná meiri stöðugleika. Við náðum frábærum leik á móti Breiðabliki en náðum ekki að fylgja því eftir í dag. Við þurfum því að ná meiri stöðugleika áður en við förum inn í Íslandsmótið," sagði Heimir en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.
Íslenski boltinn