ÍR og Keflavík mætast í kvöld í Seljaskóla í öðrum leik einvígis þeirra í átta liða úrslitum Iceland Express deild karla í körfubolta. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð Sport 2 en Keflavík tryggir sér sæti í undanúrslitunum með sigri.
Þetta verður fyrsti leikur ÍR-inga í úrslitakeppni á nýja parketinu sínu í Seljaskóla en ÍR-liðið hefur verið í miklum ham þar undanfarið. Liðið er búið að vinna fimm síðustu leiki sína í Seljaskólanum eða alla leiki þar síðan Keflvíkingar voru þar síðast 6. janúar og unnu 112-88 sigur.
ÍR hefur unnið stórsigra á Grindavík (92-69), Haukum (104-86), Stjörnunni (100-81) og KR (124-96) í síðustu fjórum heimaleikjum sínum en þessa leiki hefur liðið unnið með 22 stigum að meðaltali í leik.
ÍR hefur aftur á móti þurft að bíða lengi eftir síðasta sigri í úrslitakeppninni en þeir hafa ekki unnið leik í henni síðan þeir unnu 94-77 sigur á Keflavík í Seljaskóla 9. apríl 2008.
ÍR-ingar voru þá einum sigri frá því að komast í lokaúrslitin en í stað þess unnu Keflvíkingar þrjá leiki í röð og komust í úrslitaeinvígið þar sem þeir sópuðu út Snæfelli og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn.
Síðan þá hefur ÍR-liðið verið tvisvar sinnum sópað út úr úrslitakeppninni og tapaði síðan fyrsta leiknum á móti Keflavík á föstudaginn var.
Nú er að sjá hvort ÍR-ingar ná loksins að vinna leik í úrslitakeppninni og tryggja sér oddaleik í Keflavík á miðvikudaginn.
Síðustu átta leikir ÍR í úrslitakeppninniUndanúrslit 2008 á móti Keflavík
- ÍR vann tvö fyrstu leikina
Leikur 3: Keflavík-ÍR 106-73 [-23]
Leikur 4: ÍR-Keflavík 79-97 [-18]
Leikur 5: Keflavík-ÍR 93-73 [-20]
8 liða úrslit 2009 á móti Grindavík
Leikur 1: Grindavík-ÍR 112-78 [-34]
Leikur 2: ÍR-Grindavík 71-85 [-14]
8 liða úrslit 2010 á móti KR
Leikur 1: KR-ÍR 98-81 [-17]
Leikur 2: ÍR-KR 81-103 [-22]
8 liða úrslit 2011 á móti Keflavík
Leikur 1: Keflavík-ÍR 115-93 [-22]
Leikur 2: ÍR-Keflavík Í kvöld
