Formúla 1

Vettel: Gott að leggja línurnar með sigri í fyrsta mótinu

Sebastian Vettel fagnar sigri í Melbourne í dag og Lewis Hamilton öðru sætinu.
Sebastian Vettel fagnar sigri í Melbourne í dag og Lewis Hamilton öðru sætinu. Mynd: Getty Images/Paul Gilham
Heimsmeistarinn Sebastian Vettel var ánægður með sigurinn á götum Melbourne í Ástralíu í dag. Hann hóf titilvörnina með sigri.

"Ég er mjög ánægður og þetta var góð helgi. Ég sat í góðum bíl og keppnin gekk vel. Það róaðist allt í lokin og Lewis pressaði ekki mikið, þannig að við réðum ferðinni", sagði Vettel eftir keppnina.

"Ræsingin var lykilatriði og hún tókst vel hjá mér. Ég vissi ekki hvort það var nóg, en svo sá ég Lewis og Mark berjast um stöðu. Ég náði forskoti og hélt bilinu fram að fyrsta þjónustuhléinu."

"Þegar dekkin voru orðin griplítil, þá náði Lewis að vinna tíma á mig. Ég lét skipta um dekk á réttum tíma. Eftir fyrsta hléið var mikilvægt að komast framhjá Jenson og það tókst. Í seinni hluta mótsins vissi ég ekki hver staðan var fyrir aftan Lewis, en ég náði svo að stjórna ferðinni á lokasprettinum."

"Við lærðum heilmikið í dag og það var gott að mæta til leiks og leggja línurnar", sagði Vettel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×