Chelsea er komið með annan fótinn í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir 2-0 sigur á danska liðinu FC Kaupmannahöfn á Parken í kvöld. Þetta var fyrri leikur liðanna í 16 liða úrslitunum en sá seinni fer síðan fram á Stamford Bridge 16. mars.
Frakkinn Nicolas Anelka skoraði bæði mörk Chelsea-liðsins í kvöld og það lítur út fyrir að meiri samkeppni um framherjarstöðurnar í liðinu hafi heldur betur kveikt í kappanum.
Chelsea byrjaði af miklum krafti í Kaupmannahöfn og var nokkrum sinnum búið að skapa mikla hættu þegar Nicolas Anelka kom þeim í 1-0 á 17. mínútu. Anelka komst þá inn í slæma sendingu frá Jesper Grönkjær og skoraði af öryggi.
Chelsea hélt áfram að sækja en tókst ekki að skora fleiri mörk fyrir hálfleik. Fernando Torres var nokkrum sinnum við það að sleppa í frábær færi en fór oft illa með góða stöðu með klaufalegum móttökum.
Nicolas Anelka kom Chelsea síðan í 2-0 á 54. mínútu efir að hafa fengið flotta sendingu frá Frank Lampard. Danirnir gáfust ekki upp og reyndu að minnka muninn í lokin en það tókst ekki og Chelsea-menn fögnuðu góðum sigri.
Fótbolti