Handbolti

Logi: Við vorum í bakkgírnum í seinni hálfleik

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Logi Geirsson.
Logi Geirsson.
„Þetta var frekar dapurt í dag og ég bjóst ekki við svona leik ef ég á að segja alveg eins og er," sagði Logi Geirsson leikmaður FH eftir 25-33 tap gegn Akureyri í Kaplakrika í dag.

„Það spilaðist allt með þeim. Við höfum verið að fá mörg mörk á okkur og í dag fór það þannig. Það var erfitt að verjast þeim og á móti fór allt inn hjá þeim," sagði Logi.

„Handboltinn er þannig að ef maður lendir nokkrum mörkum undir vill maður oftast ná því öllu í einu og með því kom smá stress í sóknarleikinn," sagði Logi.

Leikurinn var í járnum í fyrri en Akureyringar kafsigldu heimamenn í seinni hálfleik.

„Við vorum í bakk-gír allan seinni hálfleik og við rifum okkur aldrei í gang. Ég er vonsvikinn með sjálfan mig enda náði ég ekki að rífa neinn upp ekki frekar en sjálfan mig. Að vissu leyti er þetta áhyggjuefni að við erum oftast að lenda undir en maður er ekkert að hengja haus yfir þessu, það þarf bara að halda áfram," sagði Logi.

Akureyringar héldu með þessu áfram sigurgöngu sinni en þeir eru taplausir í öllum keppnum.

„Þeir eru með sjálfstraustið í botni og við erum náttúrulega líka með mikið sjálfstraust en við náðum ekki að skila því inn á völlinn í dag. Markmaðurinn þeirra var að verja frábærlega og vörnin þeirra náði að þvinga okkur í erfið skot," sagði Logi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×