Erlent

Fritzl segir eigin­konuna enn­þá elska sig

Óli Tynes skrifar
Josef Fritzl
Josef Fritzl

Austurríkismaðurinn Josef Fritzl segist viss um að eiginkonan elski hann ennþá þrátt fyrir allt sem á undan er gegnið. Fritzl komst í heimsfréttirnar þegar það upplýstist að hann hafði haldið dóttur sinni fanginni í kjallarakompu í 25 ár og nauðgað henni mörgþúsund sinnum. Hann eignaðist með henni sjö börn. Fritzl er nú 75 ára gamall. Fyrir hálfu öðru ári var hann dæmdur í ævilangt fangelsi.

Han hefur nú veitt fyrsta viðtal sitt í fangelsinu og virðist einskis iðrast. Í viðtalinu við Bild Zeitung segist hann ekki vilja tala um iðrun. Spurður um dótturina sem hann hlekkjaði við rúm sitt í 24 ár muldrar hann eitthvað um ást. Hann talar um eiginkonu sína til 55 ára eins og hann sé ósköp venjulegur eiginmaður.

Hann segist hafa skrifað henni átta bréf. Hún hafi engu þeirra svarað en hann er viss um að hún elskar hann ennþá. Hvorki eiginkonan né börnin þrettán hafa heimsótt hann. Hann er þó viss um að þar sé fangelsinu um að kenna.

Í 11,5 fermetra klefa sínum hefur Fritzl meðal annars sjónvarp. Uppáhaldsþáttur hans er „Tveir og hálfur maður," með vandræðagemsanum Charlie Sheen. Hann segist hafa mest gaman af stráknum, sem minni hann á eigin son. Hann fái sig til að brosa og slappa af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×