Innlent

Skúli: Tilraun sem mistókst

Skúli Helgason.
Skúli Helgason.
Lög um landsdóm eru meingölluð og niðurstaðan í gær sýnir að Alþingi ræður ekki við það verkefni að taka afstöðu til ráðherraábyrgðar. Þetta segir Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar. Hann segir að flokkspólitík hafi ráðið för við atkvæðagreiðslu hjá öllum þingflokkum nema Framsókn og Samfylkingu.

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, er eini ráðherrann sem verður dreginn fyrir landsdóm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson verða hins vegar ekki ákærð þar sem ekki náðist meirihluti fyrir því á Alþingi í gær.

Helgi Hjörvar og Skúli Helgason, þingmenn Samfylkingarnnar, greiddu atkvæði með tillögu um að ákæra Geir en greiddu hins vegar atkvæði gegn því að draga aðra ráðherra fyrir landsdóm.

Aðspurður hvort sanngjarnt sé að ákæra Geir einan segist Skúli hafa komist að þessari niðurstöðu eftir að hafa farið í gegnum ákæruatriðin fyrir hvern og einn ráðherra og borið síðan saman við stöðu þeirra í ríkisstjórninni. Hann niðurstaða hafi verið sú að Geir hafi verið í lykilaðstöðu.

Skúli telur að minni líkur en meiri hafi verið á sakfellingu í tilfelli hinna ráðherranna og því hafi hann ekki stutt tillögur um málshöfðun gegn þeim.

Skúli segir að hins vegar ljóst að lög um landsdóm séu gölluð. Sú staðreynd að flokkslínur hafi greinilega verið ráðandi hjá meirihluta þingmanna, það er að segja hjá Sjálfstæðisflokki, Vinstri grænum og Hreyfingunni, sýni að menn hafi ekki getað hafið sig yfir flokkspólitík og tekið málefnalega afstöðu.

„Að mínu mati mistókst þessi tilraun," segir Skúli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×