Innlent

Missti öndvegisfolald úr hóstapest

Folaldið grafið Ægir Sigurðsson aðstoðaði Sigurð Grímsson við að grafa folaldið. Hryssan Brá, móðir folaldsins, stóð hjá þeim og horfði á.Fréttablaðið/GVA
Folaldið grafið Ægir Sigurðsson aðstoðaði Sigurð Grímsson við að grafa folaldið. Hryssan Brá, móðir folaldsins, stóð hjá þeim og horfði á.Fréttablaðið/GVA

„Ég missti þarna mjög fallegt folald, sem hugsað var sem reiðhestsefni,“ segir Sigurður Grímsson í Fossmúla, sem varð fyrir þeim skaða að missa vel ættað folald úr hestahóstanum á laugardaginn.

Sigurður segir öruggt að folaldið hafi drepist úr veikinni sem herjað hefur á hestastofninn frá því snemma í vor. Folaldið var grafið strax í samráði við dýralækni sem ekki taldi stætt á því að geyma það yfir helgina til að geta sent það í krufningu á Keldum.

„Móðir folaldsins var með hósta þegar hún kom úr stóðhestagirðingu,“ segir Sigurður.

„Ég hafði hins vegar ekki heyrt folaldið hósta. Svo tók ég eftir því að það var einhver deyfð komin yfir það. Þegar ég fór að skoða það betur sá ég að það var með öran andardrátt og kviðdrátt, sem kallað er, en þá herpist kviðurinn saman. Einnig sá ég að það var komið með grænt hor og svo þornað slím í kringum nasirnar.“

Sigurður kvaðst hafa haft samband við dýralækni síðastliðið miðvikudagskvöld. Hann hefði tjáð sér að veikin væri að hellast í folöld um þessar mundir og því skyldi hann fylgjast vel með litla folanum. Það dugði ekki til og telur Sigurður folaldið hafa drepist úr lungnabólgu.

Eitt dæmi er þekkt um að hestaveikin hafi greinst í manni. Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir við Fréttablaðið að kona hafi greinst með sama bakteríustofn og veldur veikinni.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×