Erlent

Morðingi Bulgers litla aftur í steininn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það varð fjölmiðlafár þegar morðingar Bulgers litla voru færðir fyrir rétt í tveimur lögreglubifreiðum á sínum tíma. Mynd/ AFP.
Það varð fjölmiðlafár þegar morðingar Bulgers litla voru færðir fyrir rétt í tveimur lögreglubifreiðum á sínum tíma. Mynd/ AFP.

Jon Venables, sem dæmdur var fyrir að myrða hinn tveggja ára gamla James Bulger árið 1993, hefur verið handtekinn að nýju. Hann er grunaður um að hafa rofið skilorð.

Venables, sem er í dag 27 ára gamall, rændi James í febrúar 1993 ásamt jafnaldra sínum Robert Thompson. Málið vakti gríðarlegan óhug enda voru morðingjarnir einungis tíu ára að aldri. Þeir voru látnir lausir á skilorði árið 2001.

Talsmaður breska dómsmálaráðuneytisins staðfesti í samtali við Daily Telegraph að Venables hafi verið handtekinn en nákvæm ástæða handtökunnar er ekki gefin upp.

Það voru börn að leik sem fundu lík Bulgers á járnbrautateinum í Liverpool fáeinum kílómetrum frá verslunarmiðstöðinni þar sem Bulger var með móður sinni þegar honum var rænt.

Þeir Venables og Thompson voru handteknir nokkrum dögum eftir morðið. Aldrei áður höfðu jafn ungir Bretar verið ákærðir fyrir morð á tuttugustu öldinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×