Handbolti

Júlíus verður næsti þjálfari Valsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Júlíus Jónasson á leik Valsmanna í gær.
Júlíus Jónasson á leik Valsmanna í gær. Mynd/Vilhelm

Júlíus Jónasson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í handknattleik hjá Val. Júlíus mun taka við liðinu að loknu yfirstandandi keppnistímabili. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Valsmönnum.

Júlíus mun halda áfram sem landsliðsþjálfari kvenna og það kemur fram í fréttatilkynningunni að ráðning Júlíusar er gerð í fullu samráði við HSÍ. Kvennalandsliðið er á góðri leið með að komast á sitt fyrsta stórmót.

Úr fréttatilkynningu Valsmanna:



Júlíus tekur við liðinu af Óskari Bjarna Óskarssyni, sem stýrt hefur liðinu með frábærum árangri undanfarin 7 ár. Óskar Bjarni mun að öllum líkindum taka við nýju starfi hjá handknattleiksdeild Vals. Óskar Bjarni hefur átt mjög gott samráð við stjórn handknattleiksdeildar um þessa breytingu og verið stjórninni ráðgefandi í ráðningu nýs þjálfara.

Óskari Bjarna færum við miklar þakkir fyrir frábært starf með meistaraflokkinn undanfarin sjö ár og hlökkum jafnframt til áframhaldandi samstarfs við Óskar, enda framúrskarandi þjálfari þar á ferð sem skilað hefur frábæru starfi fyrir félagið," segir í fréttatilkynningunni.

Júlíus er uppalinn Valsari, lék með félaginu upp alla yngri flokka og hefur unnið alla titla sem hægt er að vinna í meistaraflokki með félaginu. Í framhaldi af farsælum ferli hjá Val hélt Júlíus í atvinnumennsku. Hann lék í 10 ár sem atvinnumaður í Frakklandi, Spáni, Þýskalandi og Sviss, nánar tiltekið í PSG, Bidasoa, Alzira, Gummersbach og St Otmar.

Að loknum atvinnumannaferlinum kom hann heim og spilaði tvö ár með Val. Júlíus þjálfaði síðan meistaraflokks lið karla hjá ÍR í 5 ár og gerði liðið m.a. að bikarmeisturum.

Júlíus hefur þjálfað kvennalandslið Íslands frá því haustið 2006.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×