Fótbolti

Benitez: Verðum að vera jákvæðir

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jonas Eriksson sýnir hér Ryan Babel rauða spjaldið í kvöld.
Jonas Eriksson sýnir hér Ryan Babel rauða spjaldið í kvöld.

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, var allt annað en sáttur með sænska dómarann Jonas Eriksson í kvöld en hann dæmdi leik Liverpool og Benfica í Evrópudeildinni.

Eriksson gaf Ryan Babel rauða spjaldið í leiknum og dæmdi síðan tvær vítaspyrnur á Liverpool. Úr þeim komu bæði mörk Benfica sem vann leikinn, 2-1.

Benitez viðurkenndi að vera svekktur með viðbrögð Babel er brotið var illa á Torres en sagði að Eriksson hefði mátt vera strangari við manninn sem braut á honum.

„Ég varð mjög hissa því tækling aftan frá er alvarlegra mál. Það er mikill munur á því að sparka aftan í leikmann og ýta í andlit leikmanns," sagði Benitez en það var ástæðan fyrir rauðu spjaldi Babel. Benfica-maðurinn fékk aðeins gult spjald fyrir tæklinguna.

„Það koma alltaf ákvarðanir sem maður er ósáttur við en það er ekki hægt að breyta því. Nú verðum við bara að vera jákvæðir."

Leikmenn Benfica tóku nokkuð harkalega á Fernando Torres í leiknum og komust upp með það. Benitez var allt annað en sáttur við það. Þess utan var aðskotahlutum kastað í áttina að Pepe Reina, markverði Liverpool.

„Ég hef ekki séð endurtekningar á þessum vítum en við getum ekkert breytt því núna. Við spiluðum vel þær 60 mínútur sem við vorum manni færri og við erum svekktir því við fengum færi til að skora fleiri mörk. Það að við fengum færi segir mér að við séum gott lið."

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×