Viðskipti innlent

Vinna að bættri nýtingu fjármuna

Hugi Sævarsson Framkvæmdastjóri Birtingahússins. Markaðurinn/GVA
Hugi Sævarsson Framkvæmdastjóri Birtingahússins. Markaðurinn/GVA

Birtingahúsið fagnar nú um þessar mundir tíu ára afmæli sínu, en á þessum tíma hefur fyrirtækið unnið brautryðjendastarf í markaðsráðgjöf hér á landi.

Helstu verkefni Birtingahússins, að sögn Huga Sævarssonar framkvæmdastjóra, eru ráðgjöf til fyrirtækja um hvernig megi hagnýta sem best fé til auglýsingabirtinga.

Kveikjuna má hins vegar rekja til þess að hópur stærstu auglýsenda landsins kom saman í kjölfar hækkunar á auglýsingaverði Norðurljósa. Samtök auglýsenda voru endurvakin og samhliða því myndaðist áhugi á stofnun félags um faglega ráðgjöf um birtingastarfsemi.

„Hvatinn hjá okkur var líka að skilja á milli framleiðslu á auglýsingaefni og birtinga auglýsinga, að ráðgjöfin yrði óháð og gegnsæ.“

Hugi segir að markaðurinn hafi breyst nokkuð síðustu tíu ár. Hann sé þó áfram íhaldssamur að hluta en líka kvikur og því þurfi að fylgjast með straumum og stefnum og bregðast við. Í því sambandi má til að mynda nefna að auglýsingar færast nú í meira mæli út á veraldarvefinn þar sem helstu tækifærin liggja á sviði samfélagsvefja eins og Facebook og leitarvéla.

„Við ætlum okkur að sækja enn frekar á markaðinn en fyrst og síðast að styrkja okkar innviði og líka að brydda upp á nýjungum.“ - þj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×