Skoðun

Almennur slökkviliðsmaður - Hvað þýðir það?

Sverrir Árnason skrifar

Að undanförnu hafa verkföll slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna verið nokkuð í umræðunni. Sökum rangfærslna aðila í launanefnd sveitarfélaga hafa launatölur slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna verið stórlega misskildar.

Sá sem þetta skrifar hefur verið starfandi í faginu í sjö ár. Ég hóf starf á Keflavíkurflugvelli, á meðan Bandaríkjaher var við stjórnvölinn. Þar gekk ég í gegnum grunnþjálfun í fræðum og sinnti venjubundnum störfum slökkviliðsmanna en þó á ameríska vísu.

Árið 2005 þreytti ég inntökupróf hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Grunnkröfur eru: iðnmenntun eða sambærileg menntun, meirapróf og gott líkamlegt ástand. Inntökuprófin sjálf taka um 6 vikur, þar sem þreyttar eru ýmsar þrautir sem skera úr um hver er hæfur og hver ekki. Eftir ráðningu situr maður grunnnám í sjúkraflutningum sem gerir mann að sjúkraflutningamanni (EMT-B), fornám slökkviliðsmanns sem gerir manni kleift að stunda reykköfun með reyndum manni og sinna almennum störfum á neyðarvettvangi.

Þá tekur við vaktavinna þar sem maður kynnist starfinu betur og ef vel gengur stendur manni til boða fastráðning að 6 mánuðum liðnum. Að tæpum þremur árum liðnum sest maður aftur á skólabekk og nemur fræði sem gera mann að neyðarflutningamanni (EMT-I) og nám atvinnuslökkviliðsmanns, þar sem lærð eru fræði sem undirbúa mann fyrir störf á eldvettvangi sem 1. reykkafari, viðbrögð við eiturefnaslysum og efnaköfun, viðbrögð við flugslysum, mengunarslysi í höfnum, björgun fastklemmdra úr bílflökum sem og grunntækni í fjallabjörgun. Að þessu loknu tekur svo við vaktavinna aftur auk reglubundinnar sí- og endurmenntunar. Þrekinu má ekki hraka milli ára svo að sífelld líkamsrækt bæði á og milli vakta er nauðsynleg. Miklar nýjungar eru innleiddar í sjúkraflutningum á hverju ári sem manni ber að kynna sér, sem og að fylgjast með nýjustu stefnum og straumum í utanspítalaþjónustu. Ekki má gleyma að halda við þekkingu á þeim fræðum sem manni eru kennd í náminu.

Þvælukenndar launatölur frá LN

Nú að sjö árum liðnum þigg ég sem atvinnuslökkviliðsmaður og neyðarflutningamaður, 209 þúsund krónur í grunnlaun. Vaktaálag þiggur allt vaktavinnufólk og áhættuálag fáum við greitt fyrir að stunda reykköfun og mæta líkamlegum kröfum til þeirra starfa. Svo detta inn aukavaktir endrum og sinnum. Heildarlaun mín fyrir skatta og skyldur eru því oftast á bilinu 340-360 þúsund krónur á mánuði. Í vasann fæ ég því 230-250 þúsund krónur á mánuði. Fullyrðingar launanefndar sveitarfélaga um laun mín og félaga minna eru því þvælukenndar.

Þess ber að geta að boðtæki sem slökkviliðið leggur mér til, gerir það að verkum að ég get verið kallaður út hvenær sólarhrings sem er, allan ársins hring. Svo er ég viss um að mínir nánustu geta vottað að þessi vinna á meira í mér en vaktaskyldan segir til um.

Sanngjarnar kröfur

Mér þykir ekki ósanngjarnt að fara fram á hækkun á þessum launum. Ég hef menntað mig og þjálfað til að sinna hættulegu og erfiðu starfi sem oft fylgir mikið líkamlegt og andlegt álag. Betra starf get ég ekki hugsað mér. Ég lifi og hrærist í því alla daga en ég vil geta náð endum vel saman. Sá tími er liðinn að menn gátu unnið við önnur störf milli vakta. Krafan er að geta verið eingöngu slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður.








Skoðun

Sjá meira


×