Skoðun

Að­förin að einka­bílnum eða bara meira frelsi?

Kristín Hrefna Halldórsdóttir skrifar

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að bíllinn er orðinn eins og fjölskyldumeðlimur hjá mörgum Íslendingum. Hann fær sitt eigið bílastæði sem er stærra en hjónaherbergið hjá flestum, sínar eigin tryggingar og jafnvel nafn hjá sumum. Þess vegna hljómar það kannski dramatískt þegar rætt er um „aðför að einkabílnum“. En spurningin er: er þetta í alvöru aðför eða bara tímabært frelsi?

Við erum að lifa á tímum þar sem það er í raunverulegur möguleiki að komast á milli staða í Reykjavík án þess að eiga bíl. Rafskútur eru frábærar fyrir stuttar ferðir, deilibílar þegar þú þarft fjögur sæti og skott, og leigubílar þegar þú vilt bara sitja, slaka á og láta einhvern annan sjá um umferðina. Þetta er svolítið eins og að fara í sund, þú borgar bara fyrir þína sundferð en þarft ekki að eiga sundlaugina.

Það merkilega er að þegar fólk talar um „aðför að einkabílnum“ þá er það yfirleitt ekki vegna þess að einhver hafi bannað bílinn heldur vegna þess að nú eru komnir valkostir. Þessir valkostir þurfa smá rými til þess að festast í sessi og stundum þarf tíma til þess að læra á nýjar leikreglur. Við eigum stundum erfitt með nýja valkosti og viljum mögulega meira frelsi en helst án þess að þurfa að endurskoða venjurnar okkar.

Aðförin að einkabílnum er því kannski ekki meiri en svo að hann þarf þarf að deila sviðsljósinu. Kannski fær hann ögn minna pláss en hjónaherbergið í framtíðinni og fær ekki lengur að vera eini valkosturinn. Og ef við erum heiðarleg, þá er það kannski bara gott mál. Því raunverulegt frelsi felst ekki í því að eiga eitthvað heldur í því að hafa val.

Höfundur er framkvæmdastjóri Hopp Reykjavíkur.




Skoðun

Sjá meira


×