Innlent

Létt yfir gestum í hjálparmiðstöð

Sybbin en nokkuð brött Krakkar sem komu í hjálparmiðstöðina í Hvolsskóla í fyrrinótt vegna gossins í Eyjafjallajökli kipptu sér ekki mikið upp við atganginn, mögulega reynslunni ríkari frá því að rýma þurfti í mars vegna gossins á Fimmvörðuhálsi.Fréttablaðið/Vilhelm
Sybbin en nokkuð brött Krakkar sem komu í hjálparmiðstöðina í Hvolsskóla í fyrrinótt vegna gossins í Eyjafjallajökli kipptu sér ekki mikið upp við atganginn, mögulega reynslunni ríkari frá því að rýma þurfti í mars vegna gossins á Fimmvörðuhálsi.Fréttablaðið/Vilhelm

Fólk gerði í gamni sínu í hjálparmiðstöðinni í grunnskóla Hvols­vallar og lét það ekki raska ró sinni að vera dregið úr rúminu vegna yfirvofandi goss í Eyjafjallajökli aðfaranótt miðvikudags.

Framan af morgni var ekki ljóst hvort gos væri í raun hafið eða hvort aðeins væri um að ræða skjálftahrinu.

Þó mátti heyra lítinn dreng, kannski á fimmta ári, lýsa því skorinort yfir við föður sinn, sem bar hann á handleggnum, að það væri „pirrandi að láta vekja sig svona, út af gosi“. Systir hans heldur yngri leiddi móður þeirra þar sem þau komu út úr skólanum á leið til ættingja. Foreldrarnir, sem og aðrir tilheyrendur, brostu yfir því hvað strákurinn var mannalegur.

Þegar líða tók á morguninn lifnaði yfir börnum sem komið höfðu um nóttina og mörg tóku til við að leika sér í leiktækjum skólans og önnur úti við.

Sigurður Magnússon, húsvörður í Hvolsskóla, segir ekki hægt að merkja mikinn mun á andrúmsloftinu í skólanum við rýminguna nú og þegar rýmt var vegna gossins á Fimmvörðuhálsi. „Nema þá kannski helst að þetta er heldur rólegra núna,“ sagði hann kíminn.

„Þá var rýmt á laugardagskvöldi og því eitthvað um ölvun. Samt gekk nú allt vel þá og engin ólæti.“

- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×