Handbolti

Guðlaugur: Dagsskipunin var massífur varnarleikur

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Guðlaugur Arnarsson batt saman vörn Akureyrar í kvöld af mikilli festu. Vörn liðsins lagði grunninn að fjórtán marka sigri á Gróttu, 33-19. Leikurinn var aldrei spennandi eins og tölurnar gefa augljóslega til kynna. Guðlaugur segir þó að sigurinn hafi ekki verið alveg jafn auðveldur og hann leit út fyrir að vera.

„Þetta er aldrei auðvelt. Þetta kostaði mikla vinnu og mikla baráttu. Við þurftum að brjóta okkur út úr skelinni eftir síðasta leik gegn FH og við gerðum það. Það var ekki erfitt að koma sér í gírinn eftir það tap, við flugum beint heim eftir þann leik, fórum ekki eini sinni í sturtu og hefðum verið klárir í annan leik strax um kvöldið," sagði Guðlaugur sem tók undir með blaðamanni að hinir farþegar flugvélarinnar hafi eflaust hugsað leikmönnum þegjandi þörfina.

„Þegar við dettum í þennan gír að spila góða vörn með góða markmenn þá erum við öflugir. Skipunin í dag var massífur varnarleikur og að spila hratt. Það hefur virkað best fyrir okkur og það virkaði í dag. Við keyrðum vel á þá og það var góðan árangur."

„Þetta var lífsnauðsynlegt fyrir framhaldið. Ef við hefðum tapað hér hefðum við lent langt á eftir og við viljum vera í þessari toppbaráttu, þar ætlum við okkur að vera," sagði Guðlaugur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×