Körfubolti

Hlynur með þriðju tvennuna í röð í sigri Sundsvall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. Mynd/Stefán

Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson átti báðir góðan leik í kvöld þegar Sundsvall Dragon vann þrettán stiga sigur á Helga Má Magnússyni og félögum í Uppsala Basket, 78-65. Þetta var annar sigur Sundsvall í þremur leikjum í sænsku deildinni en Uppsala hefur unnið einn leik og tapað hinum tveimur.

Sundsvall var með örugga forustu í leiknum eftir að liðið vann fyrsta leikhlutann 31-16. Sundsvall var 17 stigum yfir í hálfleik, 51-34, og var með 19 stiga forskot, 68-49, fyrir lokaleikhlutann.

Hlynur náði þriðju tvennuna í röð þegar hann var með 10 stig og 14 fráköst en auk þessa gaf Hlynur fimm stoðsendingar í leiknum í kvöld. Hlynur var með 20,5 stig og 16,5 fráköst að meðaltali í fyrstu tveimur leikjum Sundsvall.

Sundsvall vann þær 32 mínútur sem Hlynur spilaði í leiknum með 32 stigum sem sýnir vel hversu vel kappinn var að spila í kvöld. Liðið vann með 11 stigum þær 30 mínútur sem Jakob spilaði.

Jakob skoraði 16 stig í leiknum í kvöld en hann hitti úr 6 af 11 skotum sínum í leiknum og stal 3 boltum af leikmönnum Uppsala.

Helgi Már Magnússon var með 6 stig, 6 fráköst og 2 stolna bola fyrir Uppsala en hélt áfram að hitta illa þar sem aðeins 1 af 6 skotum hans rataði rétta leið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×