Handbolti

Aron: Líka keppni á pöllunum

Elvar Geir Magnússon skrifar

Haukar komust í 2-1 í einvíginu gegn Val í kvöld með því að vinna öruggan sigur á Ásvöllum 30-24. Fjórði leikur liðanna verður á fimmtudagskvöldið að Hlíðarenda.

„Við vorum virkilega tilbúnir í slaginn í kvöld og menn sýndu hungur og vilja. Það var frábær samstaða í liðinu og það er ekki hægt annað með þennan stuðning á pöllunum," sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, eftir leikinn.

Það var mjög vel mætt á Ásvelli í kvöld og setið í öllum sætum. „Þetta er ekki bara keppni inni á vellinum heldur líka á pöllunum og það var vel mætt frá báðum liðum. Þetta gerir einvígið enn skemmtilegra."

Þrátt fyrir að staðan í einvíginu hafi verið jöfn 1-1 fyrir leikinn voru það Valsmenn sem höfðu leikið betur í báðum leikjunum sem búnir voru. Að þessu sinni voru það þó Haukar sem voru öllu sterkari.

„Fundurinn okkar daginn fyrir leik var mikið um hugarfarið. Við einbeittum okkur að því að ná uppi stemningu. Í hinum leikjunum var stemningin meira með Val, bæði á vellinum og í stúkunni. Menn hugsuðu málið heima og það skilaði sér," sagði Aron. „Nú nær maður sér bara niður og fer að einbeita sér að næsta leik. Við erum ekki búnir að taka titilinn enn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×