Innlent

Talaði aldrei um fimm fyrirtæki

Brjánn Jónasson skrifar
Svaraði spurningum í Finnlandi um orkumál á Íslandi.
Svaraði spurningum í Finnlandi um orkumál á Íslandi. Fréttablaðið/Anton
Björk Guðmundsdóttir tónlistarmaður segir fréttamann AFP-fréttaveitunnar hafa haft rangt eftir sér svör hennar um Magma Energy á blaðamannafundi á þriðjudag.

AFP hafði eftir Björk að Magma Energy ætlaði sér að kaupa upp allar orkuauðlindir Íslands og væri þegar að skoða kaup á fimm orkufyrirtækjum til viðbótar við HS orku.

Þetta segir Björk misskilning blaðamanns. Hún hafi aldrei sagt að Magma ætlaði sér að kaupa upp allar orkuauðlindir landsins. Þá hafi mögulega skolast til þegar hún hafi sagt að Magma hefði áhuga á því að virkja á fimm stöðum á landinu, hún hafi aldrei talað um kaup á fimm fyrirtækjum.

Björk segir að staðirnir sem hún hafi verið að tala um séu raunar sjö talsins. Það séu Hrunamannaafrétt, Öræfi, Reykjahlíð, Vogar, Bjarnarflagsvirkjun, Kerlingarfjöll og Krýsuvík.

Björk segist enn fremur hafa nefnt að oft hafi Magma komið til landa sem hafi þurft á hjálp frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að halda. Rangt sé að hún hafi haldið því fram að Magma sé í samstarfi við sjóðinn.

Blaðamannafundurinn var haldinn í Helsinki í Finnlandi, en tilefnið var frumsýning nýrrar teiknimyndar um Múmínálfana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×