Stórstjörnulið Real Madrid er úr leik í Meistaradeildinni eftir að hafa tapað samanlagt 2-1 gegn Lyon. Liðinu hefur ekki tekist að komast í átta liða úrslit keppninnar síðan 2004.
„Þetta er synd og skömm," sagði Guti eftir að hans lið náði aðeins jafntefli á heimavelli í seinni leiknum. „Við sýndum enn og aftur veikleika okkar í því að klára leiki."
„Við áttum að spila meira sem eitt lið í stað þess að spila eins og hópur af einstaklingum. Við lékum mjög illa í seinni hálfleik. Þeir byrjuðu að sækja þegar þeir sáu að við vorum ekkert að gera."
„Nú verðum við bara að hugsa um deildina heima fyrir. Hún er það eina sem við eigum eftir," sagði sársvekktur Guti.