Körfubolti

Jakob frábær í glæsilegum útisigri á toppliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson.
Jakob Örn Sigurðarson. Mynd/Daníel
Jakob Örn Sigurðarson átti frábæran leik með Sundsvall í toppslag sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta í kvöld. Sundsvall vann glæsilegan 91-79 útisigur á Norrköping og náði að minnka forskot liðsins á toppnum í fjögur stig. Þetta var fjórði sigur Sundsvall í röð og Jakob hefur mjög góður í þeim öllum.

Jakob Örn var með 28 stig og 5 stoðsendingar í leiknum og var efstur hjá sínu liði í báðum þessum tölfræðiþáttum. Jakob hitti úr 10 af 21 skoti sínum utan af velli, skoraði fjórar þriggja stiga körfur og var með 4 fráköst og 2 stolna bolta.

Sundsvall byrjaði leikinn mjög vel, var 19-12 yfir efir fyrsta leikhluta og hélt sjö stiga forskot fram að miðjum öðrum leikhluta (21-14 og 28-21). Norrköping náði að minnka muninn niður í fjögur stig, 37-41, fyrir leikhlé. Jakob var með 9 stig og 3 stoðsendingar í fyrri hálfleik.

Norrköping byrjaði seinni hálfleikinn mun betur og var um tíma komið sex stigum yfir en Sundsvall gafst ekki upp og var búið að jafna í 63-63 fyrir lokaleikhlutann. Sundsvall kláraði síðan fjórða leikhlutann með miklum glæsibrag þar sem Jakob skoraði 9 af 28 stigum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×