Innlent

Óvíst hvenær Landeyjahöfn opnast

Landeyjahöfn Loka hefur þurft höfninni vegna gífurlegs aurburðar sem sérfræðingar segja að sé að miklu leyti gosefni úr Eyjafjallajökli.
Fréttablaðið/Vilhelm
Landeyjahöfn Loka hefur þurft höfninni vegna gífurlegs aurburðar sem sérfræðingar segja að sé að miklu leyti gosefni úr Eyjafjallajökli. Fréttablaðið/Vilhelm

„Maður bara horfir upp í himininn,“ er fyrsta svar Sigmars Jónssonar, hafnarvarðar í Landeyjahöfn, þegar hann er spurður hvað hann fáist við á meðan Vestmannaeyjaferjan Herjólfur kemst ekki inn í höfnina vegna sands í innsiglingunni.

„Nei, það er ekki það,“ heldur Sigmar áfram. „Það er ýmislegt að dudda. Það er verið að binda endahnútinn á lóðaframkvæmdir þannig að það er ýmislegt að horfa í.“

Eftir nokkra bið er áhöfn dýpkunarskipsins Perlunnar tekin til óspilltra málanna við að dæla sandi úr innsiglingu Landeyjahafnar. Þangað til því verki er lokið heldur miðasölufólkið fyrir Herjólf sig í Þorlákshöfn þaðan sem ferjan siglir á meðan nýja höfnin er enn lokuð.

Sigmar er því eini starfsmaðurinn í Landeyjahöfn þessa dagana. Hann segir útlitið hins vegar alveg ágætt.

„Það er best að gefa ekki neitt út um það hvenær verður farið af stað,en eftir því sem Perlan fer fleiri ferðir og dýpkar meira þá styttist í það,“ segir hafnarvörðurinn í Landeyjahöfn. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×