NFL-goðsögnin Lawrence Taylor var handtekinn snemma í morgun vegna nauðgunarákæru en hann er kærður fyrir að nauðga konu á hóteli í New York.
Lögregluyfirvöld hafa ekki gefið út neinar frekari upplýsingar um málið. Hafa aðeins gefið upp á hvaða hóteli hið meinta atvik ku hafa átt sér stað.
Taylor var ein af skærustu stjörnum NFL-deildarinnar til margra ára en hann lék með NY Giants í ein 13 ár. Hann var tekinn í frægðarhöll NFL árið 1999.
Hann hefur verið að berjast við fíkniefnadjöfulinn síðustu ár og í nóvember í fyrra var hann kærður fyrir að yfirgefa slysstað.