Handbolti

Aron sendi Haukana heim með heimaverkefni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Íslandsmeistarar Hauka hafa ekki náð að sína sitt rétta andlit í fyrstu tveimur leikjunum gegn Val í úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik.

Haukarnir hafa verið hálfstemningslausir og ekki kviknað á liðinu fyrr en undir lok leikjanna. Það skilaði þeim þó einum sigri og staðan í einvíginu er 1-1. Haukarnir gætu þó hæglega verið 2-0 undir.

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, hefur eðlilega áhyggjur af þessu andleysi hjá sínum mönnum og hann brá því á það ráð að senda leikmenn liðsins heim með heimaverkefni eftir æfingu í gær.

„Hvað geturðu gert fyrir liðið?" var fyrirsögn heimaverkefnisins en allir leikmenn liðsins áttu að skrifa niður eitthvað þrennt sem þeir ætluðu að leggja til liðsins.

„Það hafa verið einhver þyngsli í okkur og ég kann í rauninni enga skýringu á því. Valsmennirnir eru afar hungraðir og við verðum að átta okkur á því og til í að mæta því," segir Freyr Brynjarsson, hornamaður Hauka, en hann var sjálfur mikið í því í fyrra að búa til stemningsmyndbönd.

„Ég hef ekkert gert af því í úrslitakeppninni núna. Ég hef bara ekki dottið í gírinn með það. Ég hef samt fulla trú á því að við finnum gírinn í kvöld og mætum rétt stemmdir," segir Freyr.

Þriðji leikur liðanna fer fram að Ásvöllum í kvöld og hefst klukkan 19.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×