Inter vann í kvöld nauman 4-3 sigur á Siena í ítölsku úrvalsdieldinni í knattspyrnu þó svo að liðið hafi verið 3-2 undir þegar skammt var til leiksloka.
Staðan í hálfleik var jöfn, 2-2. Massimo Maccarone kom Siena yfir en þeir Diego Milito og Wesley Sneijder svöruðu fyrir Inter áður en Albin Ekdal jafnaði fyrir Siena.
Maccarone kom svo Siena aftur yfir á 65. mínútu en þeir Wesley Sneijder og Walter Samuel tryggðu Inter sigurinn með mörkum á 88. og 90. mínútu.
Undir lok leiksins fékk svo Cribari, leikmaður Siena, að líta rauða spjaldið.
Þá vann Roma sigur á Chievo, 1-0, með marki Daniele De Rossi á fyrstu mínútu. Doni, leikmaður Roma, fékk svo rautt á elleftu mínútu en það kom ekki að sök. Rómverjinn David Pizarro misnotaði meira að segja víti á 56. mínútu.
Inter er á toppi deildarinnar með 45 stig, ellefu stigum á undan AC Milan sem á tvo leiki til góða. Roma er í fjórða sæti deildarinnar með 32 stig.