Handbolti

Valdimar: Það væla allir í deildinni yfir Atla línumanni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
HK-maðurinn Valdimar Fannar Þórsson er hér búinn að láta vaða í kvöld.
HK-maðurinn Valdimar Fannar Þórsson er hér búinn að láta vaða í kvöld. Mynd/Stefán
Valdimar Fannar Þórsson tryggði HK 25-25 jafntefli á móti Val í kvöld með því að skora síðasta mark leiksins úr vítakasti 55 sekúndum fyrir leikslok. Valdimar skoraði 9 mörk í leiknum.

„Við horfum á þetta sem unnið stig því þetta var orðið mjög erfitt. Við sýndum góðan karakter í lokin," sagði Valdimar en HK lenti tveimur mörkum undir og tveimur mönnum færri þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum.

„Ég held að þeir hafi unnið kaflann 1-0 þegar við vorum tveimur mönnum færri þannig að það var vel sloppið og svo komum við öflugir til baka. Þeir missa mann útaf í tvær mínútur og við kláruðum það þokkalega," sagði Valdimar.

Atli Ævar Ingólfsson lék vel í kvöld og átti tvö síðustu mörkin, skoraði það fyrra af línunni eftir sendingu Valdimars og fiskaði síðan vítið sem gaf jöfnunarmarkið.

„Þeir voru eitthvað að væla yfir Atla línumanni en það væla allir í deildinni yfir honum. Hann er bara þrusu línumaður og er mjög öflugur fyrir okkur," sagði Valdimar.

„Þetta var gríðarlega mikilvægur leikur og með þessu jafntefli þá höldum við þeim ennþá fyrir aftan okkur. Það er mjög mikilvægt því við hefðum bara getað verið í fimmta sæti eftir leikinn þegar bara fjórir leikir voru eftir. Það er mjög mikilvægt að halda þeim fyrir aftan okkur," sagði Valdimar en HK er í 3. sæti deildarinnar einu stigi á undan FH og Val.

„Þetta voru bara sterkar varnir hjá báðum liðum. Það vantaði aðeins auka hjá okkur eins og síðasta leik en núna allavega töpuðum við ekki. Það er jákvætt," sagði Valdimar að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×