Erlent

Tugir farast í skógareldum

Barist við eldana Slökkviliðið átti litla möguleika á að ráða við ofsa eldanna.
nordicphotos/AFP
Barist við eldana Slökkviliðið átti litla möguleika á að ráða við ofsa eldanna. nordicphotos/AFP

Slökkvilið Ísraels sagðist í gærkvöld ekkert ráða við skógareldana sem geisuðu skammt frá borginni Haífa. Stjórnvöld sögðu þetta verstu náttúruhamfarir í sögu Ísraels.

Um tíma æddu eldarnir áfram í hlíðum Karmelfjalla og fóru hálfan annan kílómetra á aðeins þremur mínútum. Rýma þurfti nokkur þorp og voru þúsundir manna fluttir burt frá hættusvæðunum. Meðal annars þurfti að rýma sjúkrahús, stúdentagarða, fangelsi og samyrkjubú.

Um fjörutíu fangaverðir létu lífið þegar kviknaði í strætisvagni, sem þeir voru í. Ferð þeirra var heitið að Damon-fangelsinu, þar sem rýma þurfti fangelsið vegna eldanna. Mennirnir höfðu ekki unnið í fangelsinu, heldur brugðust við hjálparbeiðni vegna eldanna.

„Þeir reyndu að flýja en brunnu lifandi. Þetta var hræðilegt,“ hafði ísraelska dagblaðið Jerusalem Post eftir talsmanni slökkviliðsins. Alls voru um fimmtíu fangaverðir í vagninum, en tíu þeirra tókst að komast undan í tæka tíð.

Óvenju miklir þurrkar eru nú í Ísrael og sterkir vindar bera eldinn hratt. Óljóst var um eldsupptökin í gær.

Eli Jischai innanríkisráðherra lét kalla út allt slökkvilið í norðanverðu landinu og Ehud Barak varnarmálaráðherra sagði að her landsins myndi taka þátt í slökkvistarfinu.

Tugir manna voru sárir eftir eldana, þar á meðal lögreglustjórinn í Haífa sem var illa haldinn.

„Við höfum misst alla stjórn á eldunum,“ hafði ísraelska dagblaðið Haaretz eftir talsmanni slökkviliðsins í Haífa. „Það er ekki til nógu mikið af slökkvibúnaði í Ísrael til að slökkva eldinn.“

Stjórnin í Kýpur og á Grikklandi höfðu í gær brugðist við hjálparbeiðni, en einnig hafði verið leitað til Bandaríkjanna, Búlgaríu, Króatíu, Spánar, Frakklands og Rúmeníu eftir aðstoð, meðal annars um að fá herþotur frá nálægum flugvöllum til að aðstoða við slökkvistarfið.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×