Erlent

Engin málamiðlun í sjónmáli

Bart de Wever Leiðtogi flæmskumælandi aðskilnaðarsinna náði ekki að mynda meirihluta.nordicphotos/AFP
Bart de Wever Leiðtogi flæmskumælandi aðskilnaðarsinna náði ekki að mynda meirihluta.nordicphotos/AFP

Tilraunir til að mynda nýja ríkisstjórn í Belgíu fóru eina ferðina enn út um þúfur í gær, fjórum mánuðum eftir þingkosningar.

Nokkrir stjórnmálaleiðtogar hafa gert árangurslausar tilraunir til stjórnarmyndunar, en harkalegar deilur frönskumælandi og flæmskumælandi íbúa landsins hafa komið í veg fyrir að þingmeirihluti verði að veruleika.

Í þetta var skiptið var það Bart de Wever, leiðtogi Nýja flæmska bandalagsins, stærsta stjórnmálaflokks landsins, sem fór á fund Alberts konungs og sagðist ekki hafa haft erindi sem erfiði.

Flokkur de Wevers fékk 27 prósent atkvæða og hafði lagt áherslu á að skipta landinu upp, eins og flæmingjar í norðurhluta landsins hafa margir hverjir barist fyrir, en frönskumælandi Vallónar í suðurhlutanum mega ekki heyra á það minnst.

Hann kynnti í síðustu viku tillögur að málamiðlun, sem snerust um að flæmskumælandi og frönskumælandi hlutar landsins tækju að sér skattheimtu að hluta, og fengju þar með traustari tekjustofna.

Frönskumælandi stjórnmálamenn höfnuðu þessum hugmyndum samstundis, og því fór sem fór.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×