Handbolti

Patrekur sér ljósa punkta þrátt fyrir fimmtán marka tap

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. Fréttablaðið
Þrátt fyrir fimmtán marka tap sá Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, nokkra ljósa punkta í leik liðsins gegn Akureyri í kvöld. Lokatölur voru 36-21 þar sem Stjörnumenn gerðu aragrúa mistaka.

„Þetta leit ágætlega út þegar Akureyri var í 3-2-1 vörn og ég var að vona að þeir myndu ekkert breyta því. Í stöðunni 15-12 skora þeir fimm mörk í röð og það gerði okkur erfitt fyrir. Við vorum inn í þessu til að byrja með en svo fjaraði þetta út. Við gerðum alltof mikið af mistökum og þegar við erum að reyna að minnka muninn klikkum við á dauðafærum ofan á allt."

„Það eru samt jákvæðir punktar í þessu og þetta var betra en gegn HK. Það var ákveðinn karakter í mönnum og Svavar varði til dæmis vel. Varnarleikurinn var allt í lagi en sóknarleikurinn var ekki í lagi. Vörnin þeirra var alveg á sex metrunum og þeir stigu ekkert skrefið út. Við hefðum þurft betri skot en við erum ekkert með hæsta liðið í deildinni."

„Þetta fjaraði eiginlega bara út í seinni hálfleik. Okkar möguleiki fólst í að ná góðri vörn og hraðaupphlaupum, ég vissi að það er það sem Akureyringar eru mjög góðir í. Því miður tókst það ekki og þeir kláruðu okkur bara. Þeir voru bara sterkari í dag eins og tölurnar gefa til kynna. Þeir voru góðir og dómgæslan var fín, það er gaman að koma hingað."

„Það stefnir bara í þriggja liða baráttu á botninum og það hefur ekkert breyst. Við þurfum að laga ákveðna hluti en það er enginn uppgjafartónn í okkur," sagði Patrekur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×