Innlent

Rauði krossinn veitir áfallahjálp á gossvæðinu

Íbúar á gossvæðinu geta rætt við fulltrúa Rauða krossins um þær hrikalegu hremmingar sem þeir hafa upplifað undanfarna daga.
Íbúar á gossvæðinu geta rætt við fulltrúa Rauða krossins um þær hrikalegu hremmingar sem þeir hafa upplifað undanfarna daga.

Rauði kross Íslands vinnur nú að því í samvinnu við heimamenn að veita íbúum og þeim sem orðið hafa fyrir áhrifum af völdum eldgossins sálrænan stuðning.

Sálfræðingur verður til viðtals í Heimalandi á morgun þriðjudag frá klukkan 12-14. Frekari viðvera sálfræðings verður auglýst síðar. Einnig var farið í Grunnskólann á Hvolsvelli og rætt við nemendur og kennara.

Boðið verður upp á opið hús fyrir þá sem eru staðsettir á höfuðborgarsvæðinu, í Rauðakrosshúsinu Borgartúni 25, á miðvikudaginn frá klukkan 14-16.

Sálfræðingur úr áfallateymi Rauða krossins verður á staðnum og fjallar um sálrænan stuðning í kjölfar náttúruhamfara og veitir ráðgjöf um stuðning foreldra og forráðamanna við börn. Rauðakrosshúsið er opið fimm daga vikunnar frá klukkan 12-17. Þar er hægt að sækja í ráðgjöf og sálrænan stuðning.

Rauði kross Íslands hvetur íbúa á svæðinu kringum Eyjafjallajökul til að huga vel að líðan barna. Á vefsíðu Rauða krossins, raudikrossinn.is, er fræðsluefni sem hægt er styðjast við.

Næstu íbúafundir eru sem hér segir: Í dag; Félagsheimilinu Vík klukkan 17 og Kirkjuhvoli Kirkjubæjarklaustri klukkan 20:30, á morgun þriðjudag; Laugalandi klukkan 14:00 og Vestmannaeyjum klukkan 18:00, á miðvikudag; Hellu klukkan 17:00 og Hvolsvelli klukkan 20:00.

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er opinn allan sólarhringinn alla daga ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×