Handbolti

Arnór Þór Gunnarsson: Við erum með betra lið en þeir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson og Sigfús Sigurðsson.
Arnór Þór Gunnarsson og Sigfús Sigurðsson.
Arnór Þór Gunnarsson innsiglaði 22-20 sigur Valsmanna á Haukum í dag í öðrum leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn og staðan í einvíginu er því 1-1. Markið hans Arnórs var hans sjötta í leiknum en líka fyrsta mark liðsins í rúmar ellefu mínútur og kom í veg fyrir að haukarnir næðu aftur að vinna upp vænlegt forskot Valsliðsins.

„Við skoruðum bara tvö mörk síðasta korterið. Þetta var algjört bull aftur hjá okkur og við þurfum aðeins að skoða þetta betur. Ég sagði það líka eftir síðasta leik en það þarf að skoða þetta eitthvað betur. Við unnum núna og það greinilegt að við fórum aðeins betur yfir þetta á síðasta vídeófundi," sagði Arnór sem skoraði örugglega á þessari úrslitastundu í leiknum.

„Maður var bara ískaldur og setti hann og þetta var bara ekkert mál," sagði Arnór og hann er fullur sjálfstraust fyrir framhaldið.

„Við erum með betra lið en þeir og það er alveg klárt. Við erum með meiri breidd og við erum fljótari. Þeir eru eru með meiri reynslu en við erum ungir og ferskir og ég held að það skili okkur titlinum," sagði Arnór.

„Við þurfum bara að halda úti þessari grimmu og orkufreku vörn. Við erum að spila 6:0 núna en vorum í 3:2:1 í byrjun vetrar. Við vorum alltaf orðnir svolítið þreyttir þegar það var korter eftir þá en það er aðeins auðveldara að spila 6:0 vörn. Ef vörnin okkar heldur þá vinnum við þetta því vörnin vinnur titla," sagði Arnór og hann er ánægður með stuðninginn sem liðið er að fá.

„Dólgarnir eru geðtrylltir upp í stúku og þeir eru þvílíkt flottir. Fólkið er síðan með okkur í þessu og það er frábært. Valsmenn eiga að fjölmenna á næsta leik á Ásvöllum og styðja okkur til sigurs. Við ætlum að stela sigri þar og vinna svo Íslandsmeistaratitilinn hérna í Vodafone-höllinni. Það er alveg klárt," sagði Arnór að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×