Talsverður órói mældist við eldgosið í Eyjafjallajökli á miðnætti, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Auk þess voru miklar drunur og aukinn kraftur.
Starfsmenn Veðurstofunnar voru í Fljótshlíð með nætursjónauka en sáu þó ekki vel til jökulsins vegna mikillar eldingarvirkni. Upp úr klukkan tvo dró úr óróanum, vatnsflaumur var stöðugur og vatnsmagn í Markarfljóti svipað og áður.
Spáð er vestlægri átt í dag og því má búast við öskufalli í Mýrdal, á Mýrdalssandi og í Skaftártungum.