Fótbolti

Jafntefli nægði Liverpool til þess að komast áfram í 32 liða úrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Milan Jovanovic fagnar hér marki sínu.
Milan Jovanovic fagnar hér marki sínu. Mynd/AP
Liverpool gerði 1-1 jafntefli á móti Steaua Búkarest í K-riðli Evrópudeildarinnar í Rúmeníu í dag og þetta eina stig nægði til þess að tryggja Liverpool-mönnum sæti í 32 liða úrslitum keppninnar þótt að einn leikur sé eftir. Liverpool er líka búið að tryggja sér sigur í riðlinum en liðið hefur enn ekki tapað leik í keppninni.

Spænski markvörðurinn Jose Reina, bar fyrirliðabandið í forföllum Steven Gerrard og Jamie Carragher en hann gerði sig seka um slæm mistök sem kostaði Liverpool-liðið sigurinn. Það kom þó ekki að sök því hinn leikur riðilsins endaði einnig með jafntefli.

Milan Jovanovic kom Liverpool í 1-0 á 19. mínútu þegar hann skallaði laglega fyrirgjöf frá Ryan Babel í markið.

Rúmenarnir sóttu í sig veðrið eftir því sem leið á leikinn og þeir áttu skilið að jafna leikinn þótt að jöfnunarmarkið hafi verið klaufalegt að hálfu Reina í markinu.

Brasilíumaðurinn Eder Bonfim skoraði jöfnunarmarkið með skalla á 61. mínútu en boltinn lak þá í gegnum klofið á Jose Reina.

Edinson Cavani skoraði þrennu fyrir Napoli í 3-3 jafntefli á útivelli á móti Utrecht en hollenska liðið komst í 3-1 í leiknum eftir að Cavani hafði skorað fyrsta mark leiksins.

Liverpool er því með 9 stig eftir fimm leiki, þrjú meira en Steaua og fimm stigum meira en Napoli og Utrecht sem geta ekki náð Liverpool. Liverpool er einnig búið að tryggja sér sigur í riðlinum því liðið er með betri innbyrðisárangur á móti rúmenska liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×