Viðskipti innlent

Lán veitt án efnislegrar skoðunar og trygginga

Bein tengsl fulltrúa eigenda bankanna í stjórnum viðskiptabankanna við æðstu stjórnendur virðast hafa orðið til þess að fjölmargar ákvarðanir um stórar lánveitingar voru teknar án efnislegrar skoðunar, sem settar reglur gerðu kröfu um og áttu að vera forsenda ákvörðunar um einstakar lánveitingar, segir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Heildaráhættuskuldbindingar stóru bankanna þriggja, auk Straums, Spron og Sparisjóðabankans námu í október 2008 14.250 milljörðum króna og tengdist helmingur þeirra 246 fyrirtækjasamstæðum, þ.e. aðilum sem bankarnir tengdu saman samkvæmt reglum um tengda aðila.

Rannsóknarnefnd Alþingis ákvað að taka til sérstakrar skoðunar 46 samstæður sem voru með 22% af áhættuskuldbindingum eða 3.165 milljarða króna. Sú upphæð svarar til fimmtungs af efnahag bankanna um mitt árið 2008. Stærstu skuldarar allra stóru viðskiptabankanna voru jafnframt í hópi stærstu eigenda þeirra, segir í skýrslunni.

Bein tengsl fulltrúa þeirra í stjórnum viðskiptabankanna við æðstu stjórnendur virðast hafa orðið til þess að fjölmargar ákvarðanir um stórar lánveitingar hafi verið teknar án efnislegrar skoðunar, sem settar reglur gerðu kröfu um og áttu að vera forsenda ákvörðunar um einstakar lánveitingar. Lán voru stundum veitt án trygginga og þá meðal annars til aðila sem tengdust eigendum fjármálafyrirtækjanna.

Fyrirgreiðsla fjármálafyrirtækjanna til þeirra aðila sem voru í úrtakinu, sem tekið var til sérstakrar skoðunar, einkenndist á árunum 2007 og 2008 fram að falli bankanna af því að endurfjármagna fyrri lánveitingar þar sem viðskiptavinur gat ekki staðið við áður gerða samninga.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×