Íslenski boltinn

Bjarni Þór: Ætlum ekki að vera farþegar í Danmörku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Edinborg skrifar

„Ég er afar stoltur fyrirliði í dag,“ sagði Bjarni Þór Viðarsson eftir að Ísland tryggði sér í kvöld sæti í úrslitakeppni U-21 liða sem fer fram í Danmörku á næsta ári.

Ísland vann í kvöld 2-1 sigur á Skotum og 4-2 samanlagt. Leikurinn í Edinborg í kvöld var þó erfiður en Gylfi Þór Sigurðsson tryggði sigurinn með tveimur glæsilegum mörkum í síðari hálfleik.

„Nú förum við til Danmerkur og við ætlum ekki að vera farþegar þar. Við ætlum okkur stóra hluti í sumar.“

„En í kvöld vorum við á hælunum í fyrri hálfleik. Þeir mættu brjálæðir til leiks og pressuðu okkur stíft. Það virtist líka allt falla með þeim. En í seinni hálfleik rifum við okkur upp og byrjuðum að spila eins og menn.“

„Leikurinn reyndi mikið á taugarnar og ég held að við höfum sýnt karakter með því að standa þetta af okkur í fyrri hálfleik. Það var klaufalegt að fá þetta mark á sig en við kláruðum leikinn vel.“

„Niðurstaðan er glæsileg. Þetta er stór stund fyrir íslenskan fótbolta og það er æðislegt að fá að vera fyrirliði þessa liðs. Ég hlakka mikið til næsta sumars.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×