Íslenski boltinn

Guðlaugur Victor: Draumur að rætast

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Edinborg skrifar

„Tilfinningin er alveg ótrúleg og það var draumur að rætast hér í kvöld,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson, leikmaður Liverpool, eftir sigur Íslands á Skotum.

Með sigrinum tryggði Ísland sér sæti í úrslitakeppni EM í flokki U-21 liða.

„Þetta var frábær leikur. Fyrri hálfleikur var reyndar ekki alveg eins og Eyjólfur vildi en við fórum inn í seinni hálfleikinn og stóðum vel fyrir okkar.“

„Svo komu þessi ótrúlegu mörk frá Gylfa. Þessi drengur er bara ekki mennskur,“ bætti hann við.

„En það sást í kvöld að liðið er gott. Við fengum að vísu mark á okkur sem var einskær óheppni og Arnar Darri veit vel sjálfur að hann getur gert mun betur. En það skiptir ekki máli núna, við unnum leikinn.“

Guðlaugur Victor kom inn í hálfleik eftir slakan fyrri hálfleik. Íslenska liðinu gekk mun betur í þeim síðari. „Eyjólfur sagði mér að koma inn og setja pressu á kantmanninn þeirra. Mér fannst það ganga ágætlega og við leyfðum þeim ekki að spila eins mikið og í fyrri hálfleik.“

„En það eru úrslitin sem skipta öllu máli og nú erum við á leiðinni á EM í Danmörku árið 2011. Þetta var algjörlega frábært og ég er orðlaus yfir árangrinum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×