Handbolti

Sveinbjörn: Ég var ekkert að telja

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Sveinbjörn var magnaður í kvöld.
Sveinbjörn var magnaður í kvöld. Fréttablaðið
Sveinbjörn Pétursson var ánægður maður þegar ég talaði við hann eftir sigur HK gegn Akureyri í kvöld. Ekki minnkaði brosið þegar honum var tilkynnt að liðið væri komið í úrslitakeppnina.

Sveinbjörn varði frábærlega í fyrri hálfleik í kvöld, alls 19 skot. Ótrúlegar tölur á 30 mínútum, enn ótrúlegra er að hann varði 15 þessara skota á 15 fyrstu mínútunum.

„Þegar maður er að spila með liði að sunnan er ekkert jafn gaman og að koma norður - og sérstaklega að vinna hérna. Ég hef spilað hér tvisvar og tapað og þetta var ljúft. Við spiluðum vel í kvöld og sýndum mikinn karakter undir lokin. Við gerðum alveg það sem þurfti í leiknum," sagði norðlendingurinn.

Hann viðurkenndi að hafa verið orðið stressaður undir lokin þegar Akureyri jafnaði og allt var á suðupunkti. „Hjartað var farið að slá aðeins hraðar en Gunni setti þetta vel upp fyrir okkur og allir skiluðu sínu hlutverki."

Ég tilkynnti Sveinbirni einnig um 19 skotin sem hann varði í fyrri hálfleik. „Jahá! Ég var ekkert að telja, ég hélt að ég væri með svona sjö eða átta og hefði bara verið sáttur. Þeir bara skutu og skutu í mig og svo nái ég nokkrum mikilvægum boltum í seinni hálfleiknum þannig að ég geng sáttur frá þessum leik."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×