Viðskipti innlent

Tíu milljarðar greiddir án undirritunar samninga

Pálmi Haraldsson
Pálmi Haraldsson

Skiptastjóri þrotabús Fons hefur hafnað tveimur kröfum slitastjórnar Glitnis í búið, sem nema samtals 10,8 milljörðum króna. Kröfurnar eru vegna framvirkra samninga um hlutabréfa- og gjaldeyrisviðskipti sem skiptastjórinn telur að séu ekki undirritaðir með fullnægjandi hætti.

Dómsmál hefur verið höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna ágreinings um kröfurnar.

Kröfurnar nema 8,35 milljörðum og 2,43 milljörðum og eru vegna sjö framvirkra samninga um hlutabréfaviðskipta og átta framvirkra samninga um gjaldeyris­viðskipti.

Í greinargerð skiptastjórans sem lögð hefur verið fyrir dóminn segir að einungis einn samningur úr hvorum bunka hafi verið undirritaður af Pálma Haraldssyni og Guðnýju Reimarsdóttur. Það sé ófullnægjandi, auk þess sem vafi sé um að þau hafi haft umboð til að skuldbinda félagið með þeim hætti þar sem viðskiptin teldust óvenjuleg eða mikils háttar.

Glitnir hefur mótmælt afstöðunni og sagt að samningarnir séu lögmætir og ekki hafi þurft undirritun.- sh








Fleiri fréttir

Sjá meira


×