Handbolti

Dregið í Evrópukeppnum í handbolta - Haukar mæta Íslandsvinum

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Haukar halda til Ítalíu.
Haukar halda til Ítalíu. Fréttablaðið/Stefán
Íslandsmeistarar Hauka fara til Ítalíu í Evrópukeppni félagsliða í handbolta og mæta þar Conversano í haust. Dregið var í morgun en fjögur íslensk lið voru í pottinum.

Haukar fara beint í aðra umferð en fyrri leikur liðanna verður helgina 16. eða 17. október á Ítalíu og sá síðari á Íslandi helgina þar á eftir.

Haukar mættu Conversano árið 2006 og komust þá áfram líkt og HK sem mætti ítölsku meisturunum árið eftir.

Í Evrópukeppni bikarhafa mætir HK liði Kaustik frá Rússlandi í þriðju umferð. Fyrri leikur liðanna verður leikinn á Íslandi helgina 20. eða 21. nóvember og sá síðari í Rússlandi viku síðar.

Í Evrópukeppni félagsliða kvenna dróst kvennalið Vals á móti Iuventa Michalovce frá Slóvakíu í fyrstu umferð. Fyrri leikur liðanna verður leikinn á Íslandi helgina 4. eða 5. september og sá síðari í Slóvakíu helgina á eftir.

Ef Valur kemst áfram í aðra. umferð þá mætir liðið Vfl Oldenburg frá Þýskalandi og fer þá fyrri leikur liðanna fram í Þýskalandi helgina 16. eða 17. október og sá síðari á Íslandi viku síðar.

Í Evrópukeppni bikarhafa kvenna dróst Fram gegn LC Bruhl Handball frá Sviss í annarri umferð. Fyrri leikur liðanna verður leikinn á Íslandi helgina 16. eða 17. október og sá síðari í Sviss helgina þar á eftir.

Ef Fram kemst áfram í þriðju umferð þá mætir liðið Podatkova University frá Úkraínu helgina 13. eða 14. nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×